Með deiliskipulagsbreytingu verða lóðirnar Skeifan 7 og 9 sameinaðar og afmörkuð ein ný lóð að viðbættu borgarlandi að Suðurlandsbraut, alls um 10.213 m² að stærð. Gert er ráð fyrir niðurrifi á byggingum sem fyrir eru á lóðunum sökum ástands þeirra. Á nýrri sameinaðri lóð verði heimilt að reisa nýbyggingu með íbúðum og atvinnuhúsnæði.
Byggingin verður að mestu leyti 4 – 6 hæða með randbyggð umhverfis upplyftan garð og 8 hæða turn í norðurhorni. Hann myndar kennileiti á mótum Álfheima og Suðurlandsbrautar við aðalstíg og kallast á við staka byggingu vestan við Glæsibæ og hábyggingar Ljósheima. Bygging er hæst í norðri og lækkar til suðurs að sólaráttum. Leitast er við að skapa fjölbreytni í hæðum byggingar og hleypa birtu inn í skjólríkan, bjartan og hljóðlátan inngarð, sem verður sameiginlegt dvalarsvæði íbúa með beinu aðgengi allra íbúða frá stigahúsum. Lögð er áhersla á gott aðgengi allra að þjónustustarfsemi á jarðhæð og íbúðarhúsnæði efri hæða. Í suðvesturhluta lóðar verður aðkomutorg sem tengist megingönguleið í gegnum Skeifuna.
Á efri hæðum verða allt að 200 íbúðir umhverfis upplyftan inngarð á þaki jarðhæðar. Garðurinn er umlukinn randbyggð íbúða og nýtur skjóls fyrir umferð og veðri. Randbyggð er rofin niður að hæð inngarðs til suðvesturs í átt að aðkomutorgi þar sem dagsbirta á greiða leið í garðinn og sjónræn tengsl myndast milli garð- og torgrýmis.
Á jarðhæð verður verslunar- og þjónusturými auk stoðrýmis, en einnig er þar gert ráð fyrir möguleika á hjólageymslum og bílgeymslu að hluta. Þar verða inngangar í stigahús íbúða efri hæða og möguleiki á læstum hjólageymslum íbúa í góðum tengslum við innganga.
Í kjallara er gert ráð fyrir hjóla- og bílgeymslu auk annars geymslu- og stoðrýmis og einnig er þar möguleiki á atvinnuhúsnæði að hluta.
Á aðkomutorgi og upplyftum inngarði verður gert ráð fyrir söfnun og miðlun ofanvatns, m.a. með blágrænum beðum trjá- og runnagróðurs sem samtímis prýða borgarrýmið.
Dagsetning
2025
Viðskiptavinur
Eik fasteignafélag