Kringlan – rammaskipulag 2018
Verkkaupi: Reitir fasteignafélag hf og Reykjavíkurborg
Rammaskipulag Kringlusvæðis var unnið á grunni verðlaunatillögu Kanon arkitekta í hugmyndasamkeppni 2017 (sjá einnig Samkeppni).
Skipulagssvæðið er þróunarsvæði skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur, um 13 ha að stærð og afmarkast af Miklubraut, Kringlumýrarbraut, Listabraut og eystri hluta Kringlugötu. Í rammaskipulaginu er sett fram stefnumótun og framtíðarsýn fyrir uppbyggingu þéttrar blandaðrar byggðar í samhljómi við hverfin í kring, nærri efldum almenningssamgöngum.
Vestur- og norðurhluti Kringlusvæðis einkennist af nýrri randbyggð, en á eystri hluta tekur Kringlan ásamt Borgarleikhúsi yfir stærstan hluta. Kringlan verður stækkuð og opnuð út í borgarrýmið, til vesturs og norðurs. Miðsvæðis verður Kringlustétt – hjarta hverfisins – opið torgrými ásamt aðlægri lifandi starfsemi í götuhæð. Kringlustétt verður í hæð við núverandi 2. hæð Kringlunnar.
Kringlusvæðið verður byggt upp í áföngum. Á fullbyggðu svæði er reiknað með um 160.000 m² nýs húsnæðis. Þar af um 60.000 m² atvinnuhúsnæðis og um 800 – 1000 íbúðum.